140. löggjafarþing — 105. fundur,  22. maí 2012.

frávik vegna styrkja úr sjóði er fjármagnar aðstoð við umsóknarríki Evrópusambandsins.

376. mál
[19:46]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég velti því fyrir mér af hverju formaður efnahags- og viðskiptanefndar er ekki hér til að hlusta á þessa umræðu. Ég held að það sé ósköp eðlilegt að óska eftir því að formaðurinn sé viðstaddur þessa umræðu. (Forseti hringir.)

(Forseti (ÁI): Það skal upplýst að hv. þm. Helgi Hjörvar er í húsi og ég hygg að hann hljóti að heyra það sem fram fer í þingsal.)

Já, við vonum það að sjálfsögðu, frú forseti. Það sem ég vil þó segja varðandi spurningar hv. þingmanns er að það er auðvitað tvískinnungur að tala á móti þessu ferli en viðhalda því svo og finnast allt í lagi að taka við þeim styrkjum sem um er að ræða.

Úr því að hv. þingmaður nefndi tvískinnung þá hafa margir þingmenn staðið hér og talað sig hása um að stjórnmálaöfl eigi ekki að þiggja styrki frá fyrirtækjum, eigi ekki að þiggja styrki frá aðilum úti í bæ, eins og það er kallað. Sömu aðilum virðist finnast sjálfsagt að fyrirtækið Evrópusambandið setji hér á fót áróðursstofu sem kölluð er Evrópustofa og ausi inn mörgum milljónum eða milljörðum króna til að lappa upp á ímynd sína. Það er bara verið að kaupa ákveðna ímynd. Ef Evrópusambandið þarf að kaupa sér ímynd þá er vitanlega eitthvað að, en það er kannski besta dæmið um að menn séu á rangri leið.

Við hljótum að gera kröfu til þess að þeir aðilar sem hafa talað gegn þessu ferli og lýst sig andsnúna því hljóti að hugsa sig um þegar kemur að því að þiggja fjármuni frá Evrópusambandinu, sem eru nýttir til að fegra ímynd sem hinir sömu þingmenn eru þá væntanlega á móti. Nú gefst tækifæri til að standa við orðin en ekki sitja við orðin tóm. Nú þurfa allir að líta í eigin barm og taka afstöðu út frá sannfæringu sinni.