140. löggjafarþing — 105. fundur,  22. maí 2012.

frávik vegna styrkja úr sjóði er fjármagnar aðstoð við umsóknarríki Evrópusambandsins.

376. mál
[20:46]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (F) (andsvar):

Herra forseti. Ég man vel eftir því þegar sá ágreiningur var uppi sem hv. þm. Jón Bjarnason vitnar hér til. Ágreiningurinn var vegna þess að einn ráðherra í ríkisstjórninni var ekki tilbúinn að hefja aðlögunarferli. Það var einungis einn ráðherra í ríkisstjórninni sem var tilbúinn að hafna styrkjum til aðlögunar. Eins og hv. þingmaður fór vel yfir stöðvaði það ekki ríkisstjórnina að hún hefði ekki heimild til að taka við þessum styrkjum, hún ætlaði samt að gera það. Hæstv. ríkisstjórn ætlaði að taka við styrkjum frá Evrópusambandinu og veita Evrópusambandinu skattafslátt án þess að hafa nokkra lagaheimild fyrir því. Það kom ekki fram fyrr en síðar að þessa heimild þyrfti eins og hv. þingmaður fór yfir í andsvari sínu.

Það verður að teljast ótrúlegt að fylgjast með því hvernig ríkisstjórnin hefur hagað sér í þessu máli, að taka hér við milljarðastyrkjum til aðlögunar, aðlögunar sem átti að heita samningar eða varð réttara sagt að kallast samningar meðan verið var að selja þjóðinni það. Það lá ljóst fyrir samkvæmt því ferli sem Ísland var að fara út í að hluti af því var að sækja um styrki til aðlögunar. Það var ekki sett inn í þingsályktunartillöguna sumarið 2009 vegna þess að reynt var að segja þjóðinni að þetta væru einfaldar samningaviðræður.

Síðan kemur þetta frumvarp inn og menn virðast koma af fjöllum og segjast hafa rekið sig á það fyrst núna að það þurfi að taka við styrkjum til aðlögunar. Þetta hefur alltaf legið ljóst fyrir. Við erum í aðlögunarferli, hluti af því er að taka við styrkjum til aðlögunar og það liggur ljóst fyrir að ferlið er svona upp byggt. Menn þurfa ekki annað en að lesa, eins og ég rakti í ræðu minni, hvernig þetta var í Króatíu sem fór í gegnum aðlögunarferli.

Það er ótrúlegt, herra forseti, (Forseti hringir.) að fylgjast með því hvernig annar stjórnarflokkurinn, með undantekningum þó, hefur algjörlega umpólast í málinu.