140. löggjafarþing — 105. fundur,  22. maí 2012.

frávik vegna styrkja úr sjóði er fjármagnar aðstoð við umsóknarríki Evrópusambandsins.

376. mál
[20:58]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F):

Virðulegi forseti. Ég hef gagnrýnt í ræðum mínum að þetta frumvarp skuli vera hér á dagskrá á undan þingsályktunartillögunni sem veitir heimild til að taka við IPA-styrkjum. En þingflokksformaður minn var að segja mér að einhver mistök hefðu orðið í þinginu og það sé ástæðan fyrir þessu. Það breytir því ekki að í þessu frumvarpi, sem lagt er fram sjálfstætt, á að gera breytingar á tekjuskatti, virðisaukaskatti og tolltekjum ríkisins. Mig undrar að þessi ákvæði séu ekki sett í lög um tekjuskatt, lög um virðisaukaskatt og tollalög heldur lögð fram sérstaklega í þessu undanþágufrumvarpi og veittar undanþágur frá þessum gjöldum. Hér er verið að eyrnamerkja þetta sérstaklega, þetta er sérstakt fríðindafrumvarp fyrir ESB þar sem þessi fríðindi eru veitt ESB-verktökum og aðilum, einstaklingum frá ESB-löndum á kostnað íslenskra ríkisborgara og íslenskra verktaka.

Ég segi enn og aftur að það er óþolandi að horfa upp á að aðilum sé mismunað svo mjög með þessu frumvarpi, sér í lagi vegna þess að við erum aðilar að EES-samningnum og hér á að gilda frjálst flæði launafólks, fjármagns, vöru og þjónustu. Hér fer ESB sjálft fram með þá kröfu á okkur sem EES-ríki að við brjótum þessa reglu. En það má allt í þessu kratasambandsríki, Evrópusambandinu, sérstaklega ef hampa þarf einhverjum á kostnað skattgreiðenda. Það kristallast í þessari umræðu og í þessu frumvarpi.

Það vill nefnilega þannig til, herra forseti, að Alþingi á eftir að samþykkja þingsályktunartillögu þar sem Alþingi veitir heimild til að samþykkja þann rammasamning sem ríkisstjórnin gerði við framkvæmdastjórn Evrópusambandsins um reglur um samstarf er varðar fjárhagsaðstoð Evrópusambandsins við Ísland, en hann var undirritaður 8. júlí 2011. Það er að verða ár síðan samningurinn var undirritaður og núna fyrst treystir hæstv. utanríkisráðherra sér til að leggja hann í formi þingsályktunartillögu fyrir þingið. Það sýnir að hér er um klára aðlögun að Evrópusambandinu að ræða þrátt fyrir orð hæstv. utanríkisráðherra um hið gagnstæða allt frá sumardögum 2009 þegar þingsályktunartillaga um að leggja inn umsókn að Evrópusambandinu var samþykkt. Síðan hefur sá spuni verið keyrður að við ættum einungis í viðræðum við Evrópusambandið en að það væri fásinna að um aðlögunarferli væri að ræða.

Nú ætla ég að vitna í nokkur ákvæði samningsins sem sýna kalt fram á að um aðlögun að Evrópusambandinu er að ræða. Í 5. gr. er til dæmis fjallað um hvaða meginreglur gilda um fjárhagslega aðstoð ESB samkvæmt reglum IPA. Í staflið a segir, með leyfi forseta:

„Aðstoð skal vera í fullu samræmi við meginreglurnar um samfellu, heildstæðni, samræmingu, samvinnu og samþjöppun.“

Hvað er samþjöppun og samvinna annað en bein aðlögun að Evrópusambandinu?

Í staflið b segir, með leyfi forseta:

„Aðstoð skal vera í samræmi við stefnumið ESB og stuðla að samræmingu við réttarreglur ESB.“

Þarna er beinlínis verið að framselja dómsvald okkar enda kemur fram að dómstólar á Íslandi koma ekki að úrskurði rísi ágreiningur út af samningi þessum.

D-liður, með leyfi forseta:

„Aðstoð skal mæta þeim þörfum sem í ljós koma í umsóknarferlinu og geta aðstoðarþegans til að veita aðstoðinni viðtöku leiða í ljós. Þá skal taka mið af fenginni reynslu.“

E-liður, með leyfi forseta.

„Hvetja ber eindregið til að aðstoðarþeginn tileinki sér áætlanagerð og framkvæmd aðstoðar og tryggja ber viðeigandi sýnileika aðstoðar ESB.“

Þarna er verið beinlínis að mælast til þess að viðeigandi sýnileiki sé í lagasetningum og reglugerðum og stofnanavæðingu hér á landi, svo landsmönnum sé gert algjörlega ljóst að um aðlögun er að ræða.

Herra forseti. Tíminn líður svo hratt að nú er tími minn búinn. Ég vil biðja herra forseta að setja mig aftur á mælendaskrá en ég mun fara betur yfir það í seinni ræðu að hér er um (Forseti hringir.) klárt aðlögunarferli að ræða og ekki um að villast að (Forseti hringir.) hæstv. utanríkisráðherra hefur beinlínis sagt ósatt varðandi það.