140. löggjafarþing — 105. fundur,  22. maí 2012.

frávik vegna styrkja úr sjóði er fjármagnar aðstoð við umsóknarríki Evrópusambandsins.

376. mál
[21:08]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mig langar líka að spyrja hv. þingmann um það sem kemur fram í umsögn frá löggiltum endurskoðendum þar sem er verið að fjalla um svokallaða ESB-verktaka og innlenda aðila sem þiggja þessa styrki. Með leyfi forseta vil ég fá að vitna í umsögnina:

„Ekki verður séð af þessu frumvarpi að fylgt sé þeirri kröfu að IPA-styrkir skuli renna óskiptir til verkefnisins, þ.e. undanþegnir öllum sköttum, þar sem innlendum aðilum er sinna verkefni af þessum toga er gert að greiða tolla og vörugjöld (af vörum sem þeir flytja ekki sjálfir inn) og tekjuskatt. Slíkt veikir samkeppnisstöðu innlendra aðila.“

Síðan er aðeins fjallað um þetta í meirihlutaáliti efnahags- og viðskiptanefndar þar sem mér finnst mjög veik tilraun gerð til að taka á þessu atriði. Þar kemur fram að þessi sjónarmið hafi verið rædd við undirbúning frumvarpsins og að það sé mat fjármálaráðuneytisins að það hafi verið of viðurhlutamikið. Mér finnst meiri hluti efnahags- og viðskiptanefndar ekki gera mikla tilraun til að bregðast við þessu hér. Þá hefði átt að vera skýrari texti um þetta í meirihlutaálitinu. Ég hef kallað eftir því við þessa umræðu að hv. efnahags- og viðskiptanefnd skoði þessa ábendingu sérstaklega á milli 2. og 3. umr. þannig að mig langar að spyrja hv. þingmann hvort hún geti tekið undir að það sé ástæða til þess fyrir hv. efnahags- og viðskiptanefnd, og auðvitað er þetta sagt í mestu vinsemd, að hv. nefnd fari yfir þetta og styrki þá hugsanlega textann því að ábendingin sem ég las er að mínu mati vel þess virði að farið sé sérstaklega yfir hana, það er skylda okkar, og reynt að gera það betur en hér er gert.