140. löggjafarþing — 105. fundur,  22. maí 2012.

frávik vegna styrkja úr sjóði er fjármagnar aðstoð við umsóknarríki Evrópusambandsins.

376. mál
[21:25]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þm. Sigurður Ingi Jóhannsson spurði hvað ég teldi eðlilegt að væri að lágmarki í nefndarálitinu sem er lögskýringargagn þar sem fram kæmi vilji þingsins með heimildinni og afmarkaði þá frekar heimildir ráðherrans til reglugerðarsetningar. Mér fyndist lágmark að kalla eftir því hjá ráðuneytinu við hvaða atriðum þyrfti að bregðast. Ég átta mig ekki á því og það kemur ekkert fram í gögnum málsins eða frumvarpinu eða neinu hvað hugsanlega gæti gerst. Það þyrfti að koma fram í nefndaráliti með viðkomandi máli, í þessu tilfelli meiri hlutans, og ráðuneytið yrði látið svara þessum spurningum í meðförum nefndarinnar, þ.e. hv. efnahags- og viðskiptanefnd.

Komi eitthvað upp sem þarf að bregðast við, segjum sem svo að það þurfi að breyta einhverri grein frumvarpsins eða bæta við grein eða gera einhverja hluti sem ekki eru fyrirséðir, það getur auðvitað komið fyrir, þá er ekkert mál að koma með breytingar fyrir Alþingi, það er ekkert flókið. Ég sé ekkert að því og hef varað oft við því að gefnar séu svo opnar heimildir.

Af því að hv. þingmaður nefndi mál hæstv. fyrrverandi sjávarútvegsráðherra um stjórn fiskveiða frá því í fyrravor þar sem „heimild ráðherra“ kom fyrir í tugum skipta þá voru engin takmörk sett. Þar sem hv. þingmaður situr í atvinnuveganefnd og forseti, sem nú situr í forsetastóli, stýrir þar af mikilli röggsemi þá er til að mynda útlistun á því þar hvernig á að fara með leigupottana eða kvótaþingið. Ráðherra getur þess vegna sett reglugerðarheimild um að það séu bara rauðir bátar, bláir bátar eða gulir bátar sem geti fengið að sækja um heimild, (Forseti hringir.) það er ekkert sem hamlar því.