140. löggjafarþing — 105. fundur,  22. maí 2012.

frávik vegna styrkja úr sjóði er fjármagnar aðstoð við umsóknarríki Evrópusambandsins.

376. mál
[21:32]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F):

Hæstv. forseti. Eins og fram hefur komið ræðum við hér um skattaívilnunarfrumvarp sem ber það sérkennilega og mikla nafn: Frumvarp til laga um frávik frá lögum um skatta og gjöld vegna styrkja úr sjóði er fjármagnar aðstoð við umsóknarríki Evrópusambandsins. Þingsályktunartillagan sem tilheyrir þessari umræðu, og hefði kannski verið eðlilegra að ræða fyrst, heitir: Tillaga til þingsályktunar um samþykkt rammasamnings milli ríkisstjórnar Íslands og framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins um reglur um samstarf er varðar fjárhagsaðstoð ESB við Ísland innan ramma stuðningsaðgerða sjóðs er fjármagnar aðstoð við umsóknarríki ESB (IPA). — Nafnið eitt og sér er eiginlega nóg til að fá hárin til að rísa. Það er einhvern veginn hálfógeðfellt, nafnið á frumvarpinu, en nafnið á tillögunni er ekkert skýrara og segir kannski býsna mikið. En spurningin er þessi: Hvað er verið að gera með þessu frumvarpi?

Ef við lítum á frumvarpið sjálft stendur í 1. gr. um tilgang þess, með leyfi forseta:

„Tilgangur laga þessara er að uppfylla þær skyldur sem íslenska ríkið tókst á hendur varðandi undanþágur frá skattlagningu með rammasamningi milli ríkisstjórnar Íslands og framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins um reglur um samstarf er varðar fjárhagsaðstoð ESB við Ísland innan ramma stuðningsaðgerðasjóðs er fjármagnar aðstoð við umsóknarríki ESB.“

Það verður að segjast eins og er að þessi rammasamningur var lengi vel eins konar leynisamningur og þegar hann kom fram var talsverð togstreita um það hvort hann væri leyniplagg eður ei. Smátt og smátt hefur hulunni verið svipt af þessu og kom fram í andsvarinu áðan að það væri sérkennilegt að taka inn í fjárlagagerðina ákveðin verkefni er tengjast þessu. Þá fyrst var rammasamningurinn sýndur, eða hann var kallaður fram, og í dag, hálfu ári síðar erum við að fjalla um heimildina sem veitir ríkinu rétt til að skrifa upp á þennan rammasamning og takast á við þær skyldur sem þar standa.

Ég lýsti því fyrst að nafnið á frumvarpinu væri hálfógeðfellt eitt og sér og ekki lagast tilfinningin þegar næstu greinar eru skoðaðar. Ef ég hleyp hratt yfir þær þá er 2. gr. um skilgreiningar, þar eru hugtökin ESB-verktaki og ESB-samningur skilgreind. 3. gr. fjallar um innflutning ESB-verktaka, en þar segir að við innflutning ESB-verktaka skuli fella niður aðflutningsgjöld. Í 4. gr. um virðisaukaskatt segir að ESB-verktaki skuli vera undanþeginn virðisaukaskatti. Þetta er ekki nóg því að í 5. gr., sem fjallar um tekjuskatt, útsvar og staðgreiðslu, stendur að einstaklingar sem ekki eru heimilisfastir hér á landi skuli undanþegnir skattskyldu. Lögaðilar sem ekki hafa fasta starfsstöð hér á landi skulu undanþegnir skattskyldu.

Herra forseti. Í 6. gr. er fjallað um búferlaflutninga til landsins. Þar segir:

„Persónulegar eigur og heimilismunir sem einstaklingar, sem taka að sér verkefni sem skilgreind eru í ESB-samningum, og nánustu fjölskyldumeðlimir þeirra, […] flytja inn til einkanota skulu undanþegnir tollum, virðisaukaskatti og öðrum aðflutningsgjöldum.“

Nú finnst víst flestum nóg komið. Nei, virðulegi forseti. Í 7. gr. er fjallað um stimpilgjöld og þar stendur:

„Allir samningar sem fjármagnaðir eru af ESB-samningi skulu vera undanþegnir stimplun og stimpilgjaldi.“

Í 8. gr. er sú reglugerðarheimild sem við fjölluðum meðal annars um í andsvari, ég og hv. þm. Ásbjörn Óttarsson, næst á undan þessari ræðu.

Ef við lítum aðeins á þau nefndarálit sem liggja fyrir þá segir á bls. 2 í áliti frá 2. minni hluta utanríkismálanefndar, sem fjallar um þingsályktunartillöguna:

„Þótt IPA-styrkir hafi hentað Austur-Evrópuríkjum sem gengu í Evrópusambandið á árunum 2004 og 2007 er ekki unnt að vísa til aðstöðu þar og nota sem fordæmi hér á landi. Efnahagsaðstæður í ríkjunum voru allt aðrar en hér, stjórnsýsla var víða í molum og innviðir þjóðfélaganna voru að hruni komnir eftir margra áratuga ofstjórn kommúnista.“

Það er augljóst að forsendurnar eru aðrar en þær sem voru í austantjaldsríkjunum þegar þetta var sett á laggirnar.

Í nefndaráliti minni hluta efnahags- og viðskiptanefndar er líka fjallað um tilganginn með þessu og þar segir:

„Að baki þeirri aðstoð býr sú hugsun að auðvelda inngöngu og vinna aðildinni fylgi. Íslensk stjórnvöld skuldbinda sig á móti til að fella niður tilgreinda skatta og gjöld sem er stórundarlegt þegar höfð er í huga almenn tregða þeirra við að létta á skattbyrði almennra borgara og fyrirtækja þessa lands.“

Aðeins neðar segir:

„Af yfirlitinu verða varla dregnar aðrar ályktanir en þær að um sé að ræða hreina aðlögunarstyrki. Í dæmaskyni má nefna markmið eins og þau að „styrkja getu Íslands til að greina og flokka dýra- og fuglategundir sem og vistgerðir sem vernda þarf í samræmi við tilskipanir Evrópusambandsins“ og „bæta hæfni og getu Íslands til að uppfylla evrópska löggjöf á sviði matvælaöryggis“.“

Áfram segir, með leyfi forseta:

„Til að bæta gráu ofan á svart hefur frumvarpið vakið hneykslan á Evrópuþinginu þar sem fram hafa komið sjónarmið um að óverjandi sé að veita þróunaraðstoð til Íslands með hliðsjón af almennri velmegun hér á landi og framgöngu Íslands í Icesave-málinu. Í fréttum Ríkisútvarpsins um málið kemur fram að stækkunarstjóri sambandsins hafi ekki fallist á að um þróunaraðstoð væri að ræða heldur „fjárhagsaðstoð til að undirbúa aðild að Evrópusambandinu“.“

Er þá nokkuð augljóst að um aðlögunarferli er að ræða, enda held ég að fáir mótmæli því nú lengur þó að um það hafi deila staðið býsna lengi.

Stóra spurningin er kannski þessi, herra forseti, þegar kemur að lokum vorþingsins, hvort þetta sé rétt forgangsröðun. Í síðustu viku eða þarsíðustu var forgangsröðun ríkisstjórnarinnar sú að tala um Stjórnarráðið. Það var talið mikilvægt að koma þeim breytingum að að leggja niður sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytið, stofna nýtt atvinnuvegaráðuneyti. Því var haldið fram að það væri að norrænni fyrirmynd sem síðar kom í ljós að var ekki. Því var líka haldið fram að þetta væri til að bregðast við ábendingum sem hefðu komið í rannsóknarskýrslu Alþingis og síðar frá þingmannanefndinni, hinni svokölluðu 63:0 ályktun. Að mínu mati er það ekki svo og var því ekki mótmælt í þeim ræðum sem ég hélt um það.

Við höfum fjallað um stjórnarskrárbreytingar. Þar var líka vísað til þess að verið væri að bregðast við því sem hefði komið fram í rannsóknarskýrslu Alþingis og þingmannaskýrslunni en ég held að ég geti fullyrt það líka að svo sé ekki. Gamla stjórnarskráin var ekki ástæða þess að hér varð hrun. Sú tillaga sem liggur fyrir frá stjórnlagaráði mun heldur ekki breyta því að slíkt geti gerst aftur ef þær aðstæður skapast, bæði hérlendis sem og í heiminum, sem voru á dögunum 2006 og 2007. Nú er aftur á móti forgangsröðun ríkisstjórnarinnar sú að koma þessum IPA-styrkjum í gegn, bæði með þessu frumvarpi til laga um frávik sem og þingsályktunartillögunni.

Nú gæti einhver spurt: Hvar eru tillögur um skuldamál heimila, verðtryggingu og almennar leiðréttingar og það sem menn hafa kannski viljað leggja meiri áherslu á? Hér hafa til dæmis verið samningar við Hreyfinguna síðustu daga og hafa svo sem ekki skilað neinu í þá veruna. Það er líka rétt að minnast þess að Framsóknarflokkurinn lagði fram hugmyndir um almenna leiðréttingu í febrúar 2009 og nú höfum við lagt fram frumvarp um verðtryggingu sem við mundum vilja setja framar í forgangsröðina þannig að verið væri að ræða það í þinginu til að koma því í gegn.

Ríkisstjórnin hefur einnig lagt mikla áherslu á að tala einhvers staðar úti í samfélaginu til að kaupa fleiri þingmenn utan stjórnarflokkanna, eins og hv. þm. Guðmund Steingrímsson, til fylgilags við sig og lagt í það að halda blaðamannafund um fjárfestingarstefnu Vinstri grænna og Samfylkingarinnar sem byggist á því að selja hlut ríkisins í bönkunum, sem að vísu hefur verið tekinn að láni, og um leið á að taka veiðigjald, sem ekki er reyndar búið að samþykkja í þinginu og ekki búið að fjalla um. Er það allt saman svolítið sérkennilegt að þetta fari fram utan þings í staðinn fyrir að leggja áherslu á það í forgangsmálum að fjalla um skuldamál heimila og raunverulega atvinnustefnu til að minnka atvinnuleysi og koma fjárfestingu í gang. Í því sambandi er kannski rétt að minna á að við framsóknarmenn lögðum í haust fram heildstæða tillögu um sókn í atvinnumálum sem tók á öllum atvinnugreinum en það hefur verið hunsað að koma því áfram í gegnum þingið. Niðurstaðan er sem sagt sú að það eru engar tillögur frá ríkisvaldinu. Forgangsröðunin er: Stjórnarráð, stjórnarskrá og IPA-styrkir en öllu öðru ýtt til hliðar. Þannig er forgangsröðunin í reynd.

Í 1. umr. var rætt heilmikið um tilganginn og grundvöllinn í þessu frumvarpi og skilgreiningu á ESB-verktökum og ESB-samningi, þ.e. aðilum sem eru undanskildir mörgum sköttum og gjöldum á Íslandi. Og þetta er mjög sérstakt. Þegar maður les frumvarpið þá skilur maður vel af hverju ríkisstjórnin var ekki tilbúin að leggja það fram fyrir áramót. Ástæðan fyrir því er sú að þegar við vorum að vinna fjárlagafrumvarp sem fól í sér gríðarlegar skattahækkanir til almennings og fyrirtækja og niðurskurð í heilbrigðisþjónustu og velferðarþjónustu hefði þetta virkað eins og bensín á eld. Þess vegna er mjög skiljanlegt að það hafi ekki verið gert.

Hins vegar er hægt að velta því fyrir sér að þetta sé ekki sérstaklega vel heppnuð fjármálastjórn eða öguð stjórnsýsla. Með því að vinna fjárlögin fyrst og láta samþykkt um samninginn um IPA-styrkina bíða má í raun segja, herra forseti, að við þingmenn séum settir í þá stöðu að standa frammi fyrir orðnum hlut. Það er í raun búið að ákveða að fara í þessi verkefni upp á tæplega 600 millj. kr., eða meiri hluti þingsins samþykkti það.

Staðan er í raun sú að neiti þingheimur að samþykkja þessa samninga þá falla þessir IPA-styrkir niður og kostnaðurinn af verkefnunum fellur þá væntanlega á skattgreiðendur og það staðfesti hæstv. utanríkisráðherra í fyrri umræðu málsins. Slík vinnubrögð er auðvitað hægt að átelja harðlega, það verður að segjast eins og er.

Ég ætla að vitna aðeins til ræðu hv. þm. Ásmundar Einars Daðasonar sem fjallaði um nákvæmlega einn þessara þátta, þ.e. umræðan um hvort við séum í aðlögun eður ei. Það kom í ljós við 1. umr. þessa máls að mörg þeirra verkefna sem ætlunin er að veita fjármagn í eru ætluð til að breyta íslensku samfélagi á þann veg að það sé búið undir Evrópusambandsaðild ef það verður samþykkt í þjóðaratkvæðagreiðslu. Ég vitna beint í ræðu hv. þm. Ásmundar Einars Daðasonar, með leyfi forseta:

„Við sjáum svart á hvítu í frumvörpum að fjármagn sem Evrópusambandið ætlar að setja hér inn er hugsað til þess að aðlaga íslenskt samfélag. Hv. þm. Sigmundur Ernir Rúnarsson, fulltrúi Samfylkingarinnar í utanríkismálanefnd, staðfesti í dag að þessir styrkir væru auðvitað ætlaðir til aðlögunar — í aðlögunarferli. Hann sagði að það væri það sem við værum í, við hefðum sótt um aðild að Evrópusambandinu og markmiðið væri að breyta regluverki okkar í samstarfi við Evrópusambandið á þessum samningstíma.“

Það þarf náttúrlega ekki frekari vitnanna við, herra forseti.

Það kom einnig fram í ræðu hv. þm. Ásmundar Einars Daðasonar við 1. umr., þar sem hann vitnaði í hv. þm. Jón Bjarnason sem hafði haldið ræðu þar fyrr um daginn, í hvaða tilgangi þessi IPA-stuðningur er:

„Það hefur komið fram hversu miklum þrýstingi hann var beittur til að taka við slíkum aðlögunarstyrkjum í sínu ráðuneyti og honum var síðan hent af ráðherrastóli vegna þess að hann teymdist ekki nógu vel í þessu máli.“

Í nokkrum af þeim ræðum sem menn héldu við 1. umr. var utanríkismálanefnd hvött til að fara vel í saumana á þessu máli, láta gera á því fjárhagsúttektir, hvaða upphæðir við værum að veita í skattafslætti og það væri ákaflega mikilvægt að það lægi fyrir áður en málið kæmi til 2. umr. Ég sé þess ekki stað, hvorki í meirihlutaáliti utanríkismálanefndar vegna þingsályktunartillögunnar né í meirihlutaáliti efnahags- og viðskiptanefndar, að þessi vinna hafi verið framkvæmd í nefndunum, því miður.

Nú er það ljóst að sá sem hér stendur er á móti því að ganga í Evrópusambandið og er þannig augljóslega á móti því að taka við mútufé sem sumir kalla svo, þessum aðlögunarstyrkjum, IPA-styrkjum. Það verður að segjast eins og er að eins og fram kemur í nefndaráliti 2. minni hluta utanríkismálanefndar eru verkefni í áætluninni gagnleg og gagnmerk og mörg hver þess eðlis að þverpólitísk samstaða gæti myndast um þau á Alþingi í betra efnahagslegu árferði óháð aðildarviðræðunum við ESB og það eru einmitt þær viðræður sem setja þessi mál í þennan harða hnút og þessar miklu deilur eins og reyndar svo mörg önnur mál sem uppi eru í samfélaginu.

Nú getum við spurt, herra forseti, til hvers við séum á þessari vegferð, á þessu ferli. Hver er staðan í Evrópu? Ég var staddur á Írlandi fyrir um mánuði og það var áhugavert að heyra í fólkinu þar hvernig það upplifði stöðuna. Það taldi að það væri komið til að vera í kreppu, kreppan yrði viðvarandi, atvinnuleysi vel á annan tug prósenta og menn sáu engin sóknarfæri til að breyta því. Menn bjuggust við að vera í þessu ferli áfram enda hefðu þeir ekki sömu tækifæri og við Íslendingar, mikið af auðlindum til sjávar og sveita og mannauð, til að eflast né heldur eigin gjaldmiðil sem hefði augljóslega hjálpað okkur eins og komið hefur fram hjá mörgum hagfræðingum heimsins, nóbelsverðlaunahagfræðingum og fleirum.

Hvernig er staðan á Spáni, herra forseti, varðandi skuldatryggingarálag sem hækkar, varðandi vexti sem hækka stöðugt af þeim lánskjörum sem Spánverjum stendur til boða? Hvaða fréttir voru fyrir stuttu síðan um matsfyrirtækin um fjölda af bönkum sem þeir lækkuðu mat sitt á, heilu héruðin sem voru lækkuð? Atvinnuleysi í þvílíkt háum hæðum að það hálfa væri nóg og við gætum vart sett okkur í þau spor þar sem atvinnuleysi meðal ungs fólks er gríðarlegt, telst í tugum prósenta? Þar er gríðarleg ólga að ekki sé minnst á Grikkland þar sem menn þurfa að fara í kosningar í það minnsta einu sinni enn til að reyna að finna möguleika á því að búa til starfhæfa ríkisstjórn. Evran í Grikklandi og líkurnar á því að Grikkland gangi úr evrusamstarfinu — það hefur gengið það langt að meira að segja ríkisstjórn Íslands undirbýr viðbragðsáætlun. Hvað gerist ef Grikkir ganga út úr evrunni og evran hrynur? Og það er sama ríkisstjórnin sem undirbýr viðbragðsáætlun og sækir um aðild að Evrópusambandinu og sækir um að fá að taka við þessum IPA-styrkjum.

Við erum í harðri baráttu við Evrópusambandið í Icesave-málinu, við erum í harðri baráttu í sambandi við makrílinn og það hefur komið fram að ýmsar eftirlitsstofnanir sem Evrópusambandið getur beitt á okkur, eins og hin sameiginlega eftirlitsstofnun ESA, gengur harðar fram vegna aðildarviðræðna en ella. Ég tel augljóst að við eigum ekki að samþykkja þessa IPA-styrki. Ég tel augljóst að við eigum að standa á eigin fótum og vera ekki upp á aðra komnir, hvað þá Evrópusambandið.