140. löggjafarþing — 105. fundur,  22. maí 2012.

frávik vegna styrkja úr sjóði er fjármagnar aðstoð við umsóknarríki Evrópusambandsins.

376. mál
[21:55]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F) (andsvar):

Herra forseti. Ég held að ástæðan fyrir feimninni við að viðurkenna að þetta séu aðlögunarstyrkir sé sú harða umræða sem hv. þingmaður, þáverandi ráðherra, stóð meðal annars fyrir fyrr í aðlögunarferlinu, þ.e. þegar hæstv. utanríkisráðherra og hæstv. forsætisráðherra og jafnvel þáverandi hæstv. fjármálaráðherra, formaður Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, mótmæltu því harðlega daginn út og daginn inn að um aðlögun væri að ræða. Reyndar gerðu það mjög margir þingmenn stjórnarliða, sérstaklega Samfylkingar, og lögðu mikinn kraft í að reyna að sannfæra menn um að við værum í tvíhliða samningaviðræðum, Ísland með 300 þús. einstaklinga og síðan 27 þjóða Evrópusambandið með 500 milljónirnar, að við værum að reyna að kíkja á hvað Evrópusambandið mundi bjóða okkur. Þetta voru sagðir samningar milli tveggja jafnstæðra aðila. Þá mátti enginn heyra minnst á aðlögun. Mér hefur fundist, og fór aðeins yfir það í ræðu minni, að nokkrir hafi viðurkennt að hér væri um aðlögun að ræða. Hæstv. forsætisráðherra minntist á það í framhjáhlaupi í ræðu í síðustu viku, áður en hæstv. forsætisráðherra fór í ferðalög til ýmissa landa, að þarna væri um aðlögun að ræða. Ég held að það sé feimni við að viðurkenna það sem menn börðust fyrir í tvö ár og Bændasamtökin fóru nokkuð grimmt í að um aðlögun væri að ræða.

Ég verð að segja alveg eins og er að það er að mínu mati mjög augljóst að um aðlögunarstyrki sé að ræða. Mér finnst nánast ógeðfellt að þiggja styrki af risastórum samningsaðila sem við erum vissulega í samningaviðræðum við eða umsóknarferli, aðlögun, á sama tíma og þeir fara með þjósti fram í Icesave, makríl og fleiri þáttum.