140. löggjafarþing — 106. fundur,  24. maí 2012.

störf þingsins.

[10:42]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Það hlýtur að vera umhugsunarefni að við erum búin að ræða mjög stórt mál í nokkra daga og í eina skiptið sem hv. stjórnarþingmenn, með örfáum undantekningum, taka þátt í umræðunni er undir liðnum um störf þingsins. Það gengur jafnvel svo langt að hv. þingmenn koma hingað og verja þessa fúskstjórn og halda því fram, eins og kom fram undir liðnum um störf þingsins í gær, að það væri ekkert aðferðafræðilega rangt við þær spurningar sem hér eru lagðar fram og eru í tillögu stjórnarliðsins. Jafnvel var gengið það langt að tengja fræðimenn við samningu þessara spurninga. Ef menn skoða blöðin í morgun sést að þeir fræðingar sem nefndir voru í nefndaráliti eru á harðahlaupum frá þeirri vinnu. Það er ekki ástæðulaust. (Gripið fram í: Rétt.)

Mér þykir slæmt þegar hv. þingmenn, ég tala ekki um þá sem vita betur, upplýsa ekki þing og þjóð um staðreyndirnar um hina svokölluðu samninga Íslands við Evrópusambandið. Hvenær ætla hv. þingmenn Samfylkingarinnar að koma hingað og segja satt og rétt frá um það mál? Hvenær ætla þeir að segja frá því að Ísland verður að vera aðili að sameiginlegri sjávarútvegs- og landbúnaðarstefnu? Hvenær ætla þeir að gera það? Hvenær ætla þeir að segja frá því að hinar svokölluðu undanþágur eru þess eðlis að Evrópusambandið getur breytt þeim?

Virðulegi forseti. Auðvitað er allt svona persónulegt. Ég geri misjafnlega miklar kröfur til einstaklinga og til sumra einstaklinga geri ég mjög miklar kröfur jafnvel þótt ég sé í öðrum flokki. Þeir hafa valdið mér vonbrigðum.