140. löggjafarþing — 106. fundur,  24. maí 2012.

störf þingsins.

[10:46]
Horfa

Björgvin G. Sigurðsson (Sf):

Frú forseti. Ég vek athygli á því að núna í morgun afgreiddi allsherjar- og menntamálanefnd Alþingis út tillögu sem nefndin öll tók sig saman um að flytja fyrir skömmu þar sem innanríkisráðherra er falið að undirbúa aðgerðaáætlun gegn skipulagðri glæpastarfsemi. Hún á að liggja fyrir í haust og þá álykti Alþingi um að fjármálaráðherra tryggi að gert verði ráð fyrir 50 millj. kr. fjárveitingu til lögreglunnar á fjáraukalögum til að lögreglan geti starfrækt áfram sérstakt rannsóknar- og aðgerðateymi gegn skipulagðri glæpastarfsemi og mansali. Þetta var afgreitt hratt og vel og í mikilli samstöðu og er ástæða til að fagna því, sérstaklega af því að það er mjög mikilvægt að lögreglunni séu áfram tryggðar fjárheimildir og aðstaða til að vinna kerfisbundið gegn uppgangi skipulagðrar glæpastarfsemi. Hennar gætir víða í samfélaginu eins og við sjáum meðal annars í alvarlegum atburðum innan fangelsa landsins sem utan. Þess vegna er mikilvægt að Alþingi afgreiði þessa tillögu hratt og vel eftir seinni umræðu og treysti ég því og trúi þar sem nefndin öll stendur saman að henni.

Þá vek ég athygli á því að fjármunir til uppbyggingar á nýju fangelsi og sem viðbót við fangelsisflóru landsins eru tryggðir sérstaklega í þeirri fjárfestingaráætlun sem ríkisstjórnarflokkarnir kynntu fyrir tæpri viku þannig að þær framkvæmdir geti farið á fullt og haldið áfram. Jafnframt þarf að tryggja fangelsunum á Sogni og Litla-Hrauni fjármuni til að klára framkvæmdir vegna tilflutnings opna fangelsisins frá Bitru að Sogni og ná þessum málum öllum saman þannig að vel verði tekið utan um, bæði fjárhagslega og öðruvísi. Þess vegna er mjög mikilvægt að nefndin skyldi ná að klára þessa tillögu í morgun og að hún verði afgreidd fyrir þinglok í vor.