140. löggjafarþing — 106. fundur,  24. maí 2012.

störf þingsins.

[10:53]
Horfa

Höskuldur Þórhallsson (F):

Virðulegi forseti. Það eru hlutir í þessu lífi sem ég vil ekki semja um, hlutir sem eru mér kærir, hlutir sem snúa að hagsmunum mínum og annarra og ég er ekki reiðubúinn að setjast við samningaborðið um.

Hv. þm. Baldur Þórhallsson hélt ágæta ræðu áðan sem ég er reyndar ósammála. Megininntak ræðunnar var að við ættum að kíkja í pakkann, við ættum að skoða hvað við fengjum. Ég er honum ósammála. Samningaviðræður sem fela í sér hversu mikið Íslendingar þurfa að gefa eftir af sjávarauðlindinni eru samningaviðræður sem ég vil ekki taka þátt í. Samningaviðræður sem fela í sér hversu miklar bætur bændur fá þegar óheftur innflutningur matvæla hefst við inngöngu í ESB eru einnig samningaviðræður sem ég vil ekki taka þátt í. Samningaviðræður sem felast í því að við tökum upp evru og gefum eftir stjórn efnahagsmála eru samningaviðræður sem ég vil ekki taka þátt í.

Virðulegi forseti. Einhverjum hefur tekist að selja þjóðinni að það sé spennandi að kíkja í hinn svokallaða pakka, sjá hvað við fáum. Þessar samningaviðræður snúast um það að við gefum eftir þau réttindi sem við höfum núna. Það er algjörlega útilokað að við getum fengið sterkari yfirráð yfir sjávarauðlindinni en við höfum í dag og um það vil ég ekki semja, frú forseti.

Þau leiðu mistök urðu þegar þetta var ákveðið á Alþingi, eða réttara sagt einhvern veginn lamið í gegn, að þjóðin var ekki spurð (Forseti hringir.) álits og auðvitað styð ég að það verði gert.