140. löggjafarþing — 106. fundur,  24. maí 2012.

störf þingsins.

[10:56]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Virðulegi forseti. Þeir þingmenn sem vitnað er í sem tala um að kíkja í pakkann ættu að kynna sér bæklinginn frá Olli Rehn sem heitir á ensku, með leyfi forseta, „Understanding Enlargement“ og er um það hvernig Evrópusambandið vinnur og út á hvað það gengur. Þetta eru ekki samningaviðræður þannig að það liggi bara fyrir, hv. þm. Baldur Þórhallsson.

Hér hafa þingmenn talað um málefnalega umræðu um stjórnarskrárkosninguna sem verður væntanlega einhvern tímann í október. Hvar voru þessir þingmenn þegar við kölluðum hér eftir upplýsingum og reyndum að fá málefnalega umræðu um þetta mál í þingsal? Hvar var hv. þm. Þór Saari þegar við vildum fá svör við ákveðnum spurningum og túlkunum á tillögum stjórnlagaráðs eða ræða þær breytingartillögur sem voru lagðar fram? Hvar voru þingmenn þá til að taka þátt í málefnalegri umræðu? (VigH: Uppi í tré.) Svo koma menn hingað og heimta málefnalega umræðu þegar þingið er búið að senda frá sér þennan óskapnað sem mun líta dagsins ljós, að ég tel. Það er ekki hægt að koma svona fram, hv. þingmaður, ég verð að segja það.

Sömu þingmenn tala gjarnan um lýðræði, að þjóðin eigi að fá að segja álit sitt á því hvernig stjórnarskráin líti út. Sömu þingmenn vilja ekki leyfa sömu þjóð að segja álit sitt á því hvort halda eigi áfram viðræðum við Evrópusambandið. Mér er óskiljanlegt hvernig menn geta túlkað lýðræðisást sína svona gjörsamlega út og suður. Það er ekki hægt að koma fram með þessum hætti, frú forseti, það verður að segjast alveg eins og er.

Enginn hefur efast um að þjóðin eigi að fá að segja álit sitt að lokum, eins og hv. þm. Árni Þór Sigurðsson sagði. Verði einhvers konar samkomulag um aðlögun Íslands að þessu sambandi mun þjóðin fá að koma að því. En hvers vegna spurðu sömu þingmenn ekki þjóðina hvort fara ætti af stað í þessa vegferð? (Gripið fram í.) Svo halda þeir því fram að Evrópusambandsmálið verði útkljáð við aðild. Horfið á fréttir, (Forseti hringir.) horfið á Evrópusambandið, hvað er að gerast þar? Þar efast heilu þjóðríkin um að það sé rétt að vera í þessu sambandi. Halda menn að þetta fari eitthvað frá okkur? (Forseti hringir.) Ekki aldeilis.