140. löggjafarþing — 106. fundur,  24. maí 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[11:07]
Horfa

forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Hæstv. forseti. Sú þjóðaratkvæðagreiðsla sem hér er verið að greiða atkvæði um er söguleg og gríðarlega mikilvægur þáttur í því lýðræðislega ferli sem mótun nýrrar stjórnarskrár fyrir Ísland hefur verið allt frá hruni. Þetta verður í annað sinn sem þjóðinni allri gefst tækifæri til að koma beint að málinu í almennri atkvæðagreiðslu. Samkvæmt skoðanakönnunum er afstaða þjóðarinnar til fyrirhugaðrar þjóðaratkvæðagreiðslu skýr. Yfirgnæfandi meiri hluti þjóðarinnar vill greiða atkvæði um fyrirliggjandi tillögu stjórnlagaráðs að nýrri stjórnarskrá og nú er komið að Alþingi Íslendinga að tryggja að sá sterki vilji þjóðarinnar geti orðið að veruleika. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)