140. löggjafarþing — 106. fundur,  24. maí 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[11:08]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S) (um atkvæðagreiðslu):

Frú forseti. Hvers vegna erum við að greiða atkvæði um þessa tillögu? Hvers vegna hefur ekki komið fram frumvarp á þinginu eftir þjóðfund, eftir að meiri hluti þingsins kaus sérstaka nefnd til að gera tillögur að nýrri stjórnarskrá? Skyldi það vera vegna þess að með skipun stjórnlagaráðsins var í fyrsta skipti í þingsögunni komið á fót nefnd sem var falið jafnviðamikið verkefni einhliða af meiri hlutanum þar sem stjórnarandstaðan átti engan fulltrúa? Skyldi það vera vegna þess að stjórnarmeirihlutinn og ríkisstjórnin hefur ekki hjarta í sér til að byggja frumvarp á slíkum vinnubrögðum og er núna að reyna að finna sérstaka réttlætingu fyrir því að byggja nýtt frumvarp á þeirri vinnu með aðkomu þjóðarinnar? Þjóðin er ekki að fara að segja skoðun sína á þeim drögum. Það liggur meira að segja fyrir að stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd ætlar að breyta málinu áður en atkvæðagreiðslan sjálf á að fara fram (VigH: Rétt.) sem verður ekki nema ráðgefandi.

Ef málið væri eins og hæstv. forsætisráðherra var að segja, hvers vegna er þá ekki bara vinna stjórnlagaráðsins lögð fyrir þjóðina (Forseti hringir.) með húð og hári óbreytt en ekki svona til grundvallar frumvarpi í framtíðinni? Þetta mál er eitt samfellt klúður og það er á ábyrgð þeirra sem hunsuðu niðurstöðu Hæstaréttar (Forseti hringir.) eftir hina ógildu kosningu og það verður áfram á ábyrgð þeirra sem hér hafa stýrt í þinginu.