140. löggjafarþing — 106. fundur,  24. maí 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[11:13]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Þjóðaratkvæðagreiðslan sem hér er til atkvæða núna er enn eitt skref á leiðinni til að semja nýja stjórnarskrá og hafa um það ítarlegt samráð við fólkið í landinu. Stjórnarskráin er okkar allra en ekki bara stjórnmálaflokkanna eða alþingismanna. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)

Spurningarnar sem lagðar eru fram, a.m.k. aðalspurningarnar, eru þær sem ætla má að fólk hafi sterkastar skoðanir á. (Gripið fram í.) Fólki gefst tækifæri til að svara grundvallarspurningunni játandi en til dæmis spurningunni um jafnan atkvæðisrétt neitandi. Það er einfalt og það er skýrt.

Aðrar spurningar sem hér liggja fyrir munu þingmenn ræða í efnislegri umræðu um frumvarp til stjórnarskipunarlaga á næsta þingi og svo eru enn aðrar sem væntanlega munu falla í gleymsku.