140. löggjafarþing — 106. fundur,  24. maí 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[11:17]
Horfa

Álfheiður Ingadóttir (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Frú forseti. Þrátt fyrir ótrúlega óbilgirni Sjálfstæðisflokksins og kúvendingu Framsóknarflokksins í stjórnarskrármálinu stígur Alþingi nú enn eitt skref á þeirri vegferð sem hófst strax eftir hrun og var lofað í kosningunum 2009, að setja Íslandi nýja stjórnarskrá. Nú skal leitað til þjóðarinnar í ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðslu og hún spurð um helstu álitaefni og deilumál síðustu missira og um afstöðu til þess hvort tillögur stjórnlagaráðs skuli vera grunnur að frumvarpi að nýrri stjórnarskrá sem við leggjum hér fyrir næsta þing og ræðum í þremur umræðum eins og lög standa til.

Þetta er mikilvægt skref. Ég óska Alþingi Íslendinga og íslensku þjóðinni til hamingju með það og þann áfanga sem við erum hér að ná. Við erum komin lengra í dag en í gær í átt til þess að setja lýðveldinu Íslandi nýja stjórnarskrá. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)