140. löggjafarþing — 106. fundur,  24. maí 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[11:18]
Horfa

Lilja Mósesdóttir (U) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Ég tel mikilvægt að auka vægi beins lýðræðis með þjóðaratkvæðagreiðslum um mál sem brenna á þjóðinni. Tillaga hv. stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar um ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðslu tekur ekki á öllum álitaefnum varðandi tillögu stjórnlagaráðs, aðeins álitaefnum sem meiri hluti nefndarinnar telur mikilvægt að fá fram álit þjóðarinnar á.

Ég harma ólýðræðisleg vinnubrögð meiri hluta nefndarinnar sem draga munu úr áhuga kjósenda á þátttöku í þessari ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðslu. Ég tel mikilvægt að fá fram afstöðu kjósenda til allra álitaefna í tillögum stjórnlagaráðs og mun því segja já við þeim breytingartillögum sem koma til atkvæða.