140. löggjafarþing — 106. fundur,  24. maí 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[11:23]
Horfa

Siv Friðleifsdóttir (F) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegur forseti. Ég skora á þjóðina að taka þátt í þjóðaratkvæðagreiðslunni um stjórnarskrána sem stefnir í að fram fari í haust. Ég vona að þeir sem hafa verið íhaldssamir hvað varðar breytingar á stjórnarskránni hætti að beita sér gegn þjóðaratkvæðagreiðslunni og vinni ekki gegn því að þjóðin taki þátt í henni. (Gripið fram í: Heyr, heyr.) Eftir því sem þátttakan verður meiri, þeim mun meiri styrk munu þingmenn fá til að víkja frá þrengstu flokkshagsmunum sem fyrirfinnast innan allra flokka og þrýstingi ýmissa hagsmunasamtaka hvað varðar breytingar á stjórnarskránni.

Ég tel rétt að við leitum til þjóðarinnar á þessu stigi með ákveðin grundvallarmál einmitt núna þegar Alþingi er að hefja margra mánaða efnislega vinnu og umfjöllun um einstakar greinar. Ég styð því eindregið að þessi þjóðaratkvæðagreiðsla um stjórnarskrána fari fram í haust og skora á þjóðina að taka þátt. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)