140. löggjafarþing — 106. fundur,  24. maí 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[11:29]
Horfa

Höskuldur Þórhallsson (F) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Það var erfið ákvörðun að setja stjórnlagaráð á laggirnar. Ég taldi það hins vegar rétt úr því sem komið var og vitnaði til erfiðleika við að breyta stjórnarskránni í áranna rás.

Ég setti það hins vegar sem skilyrði að málið yrði tekið til efnislegrar meðferðar á Alþingi. Nú liggur fyrir að sú efnislega meðferð hefur ekki farið fram. (Gripið fram í: Einhliða.) Þingmenn Hreyfingarinnar settu sig upp á móti þeim skilyrðum sem sett voru og lögðu fram breytingartillögu þegar stjórnlagaráðið var ákveðið. Hún hljóðar svo, með leyfi forseta:

„Áður en umfjöllun Alþingis um frumvarp til stjórnarskipunarlaga hefst skal fara fram þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs.“

Það er efnislega samhljóða því sem við erum að fara að greiða atkvæði um í dag. Þegar stjórnlagaráð var sett á laggirnar höfnuðu 42 þingmenn þessari tillögu Hreyfingarinnar, sex sögðu já og níu sátu hjá.