140. löggjafarþing — 106. fundur,  24. maí 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[11:31]
Horfa

Illugi Gunnarsson (S) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Ég tel mjög mikilvægt að þegar þjóðin greiðir atkvæði um mál sem eiga uppruna sinn á Alþingi sé sú atkvæðagreiðsla merkingarbær þannig að þjóðin sé í raun og veru að segja já eða nei. Í þessari atkvæðagreiðslu er um að ræða einhvers konar ráðgefandi atkvæðagreiðslu. Ég er þeirrar skoðunar að hér sé verið að fara fram með röngum hætti og ábyrgðarlausum. Það hefði verið miklu nær að Alþingi Íslendinga hefði fullmótað tillögur og lagt fyrir þjóðina. (Gripið fram í.) Þetta er gervilýðræði (VigH: Já.) og það er verið að senda þau skilaboð til þjóðarinnar að um sé að ræða atkvæðagreiðslu um stjórnarskrá þegar svo er ekki í raun og veru.

Hvað munum við þingmenn gera ef það verður mjótt á mununum í þessari ráðgefandi atkvæðagreiðslu? Hvernig munu menn lesa úr slíkri niðurstöðu ef 49% segja já (Forseti hringir.) og 51% nei? Hversu ráðgefandi verður sú niðurstaða, frú forseti?