140. löggjafarþing — 106. fundur,  24. maí 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[11:32]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegur forseti. Í fyrsta sinn er nú unnið að breytingum á stjórnarskrá án samráðs, án þess að reyna að ná sátt og samstöðu. Hér erum við reyndar ekki að fara að greiða atkvæði um breytingar á stjórnarskránni. Við erum að fara að greiða atkvæði um hvernig spurt verði út í mjög óljósa hluti sem ekki er einu sinni ljóst hvernig verða þegar til kastanna kemur eða hvernig með þá verði farið. Þetta er sýndarlýðræði vegna þess að meiri hlutinn á þinginu treystir almenningi ekki til að taka afstöðu í alvörumálum þar sem niðurstaðan hefur raunveruleg áhrif, þar sem ríkisstjórnin getur ekki farið með niðurstöðuna eins og henni hentar.

Hv. formaður stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar hefur reyndar útskýrt að hér sé fyrst og fremst verið að greiða atkvæði um þá hugmyndafræði sem eigi að leggja til grundvallar við breytingar á stjórnarskrá. Þess vegna þykir mér eðlilegt að spyrja þá út í grundvallarspurningarnar er varða hugmyndafræðina, þar með talið hvort vinna eigi breytingar á stjórnarskrá á þann hátt að um þær takist sem víðtækust sátt. Við vitum svar meiri hlutans hér við þeirri spurningu, en treystir meiri hlutinn þjóðinni (Forseti hringir.) til að skera úr um hvort hún vilji láta vinna breytingar á stjórnarskrá með þeim hætti?