140. löggjafarþing — 106. fundur,  24. maí 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[11:33]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (U) (um atkvæðagreiðslu):

Frú forseti. Ég vil freista þess eins og sumir aðrir að reyna að minna á og leggja á það áherslu að við erum í miðju ferli. Þetta ferli er orðið ansi langt. Það má eiginlega segja að allan lýðveldistímann hafi verið hávær krafa um að Íslendingar mundu setja sér frumsamda stjórnarskrá. Það myndaðist ansi víðtæk stemning fyrir því í aðdraganda og eftirleik síðustu kosninga að við mundum fara í mjög víðtækt samráðsferli við þjóðina um að skrifa nýja stjórnarskrá.

Við erum í miðju þessu ferli. Það hefur tekist vel. Þjóðfundur tókst vel, stjórnlaganefnd tók við niðurstöðu þjóðfundarins og skilaði mjög góðri skýrslu. Stjórnlagaráð hefur skilað mjög góðum tillögum að stjórnarskrá. Núna ætlum við að spyrja þjóðina um efnisatriði þessara tillagna. Það verður okkur veganesti í efnislega umræðu allan næsta vetur og síðan þarf ekki bara þetta þing sem hér situr að samþykkja nýja stjórnarskrá heldur líka þingið sem tekur við eftir næstu kosningar þannig að við erum í miðju ferli. Við megum ekki gleyma því. Menn tala stundum eins og þetta sé (Forseti hringir.) eitthvað sem hafi komið inn í þingið í gær en ég vona að við berum gæfu til að klára þetta sómasamlega. Mér virðist allt benda til þess.