140. löggjafarþing — 106. fundur,  24. maí 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[11:35]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Eins og fram kom fyrr í þessari umræðu höfum við sjálfstæðismenn ákveðið að draga breytingartillögur okkar til baka og varpa þannig ábyrgðinni á öllu þessu klúðri til þeirra sem bera ábyrgð á landsstjórninni, til hæstv. ríkisstjórnar.

Ég vil vekja athygli hv. þingheims á snörpum pistli Kolbrúnar Bergþórsdóttur í Morgunblaðinu í morgun sem ber heitið Klúðursleg skoðanakönnun. Þar gagnrýnir Kolbrún bæði stjórn og stjórnarandstöðu, gagnrýnir stjórnarandstöðuna fyrir að halda uppi málflutningi í lengri tíma um þetta mál. Í lok pistilsins segir Kolbrún, með leyfi forseta:

„Það er ansi furðuleg stjórnarandstaða sem leyfir ríkisstjórn ekki að verða sér til skammar.“

Þetta er hárrétt hjá Kolbrúnu. Leyfum ríkisstjórninni að verða sér til skammar. [Kliður í þingsal.]