140. löggjafarþing — 106. fundur,  24. maí 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[11:36]
Horfa

Lúðvík Geirsson (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Það er satt að segja undarlegt að hlusta á rök þeirra þingmanna sem tala gegn samráði og samvinnu við þjóðina, tala gegn þjóðaratkvæðagreiðslu, [Kliður í þingsal.] tala um að verið sé að fara fram með ranga hluti og ábyrgðarlausa og gervilýðræði, (Gripið fram í: Lestu málefna…) þingmenn sem hafa staðið í púlti dögum saman með sýndarumræðu og sýndartillögur sem þeir eru svo tilbúnir að draga nánast allar til baka í umræðunni núna þegar komið er að kosningum. (Gripið fram í: Hvað vilt þú?) Ég tók þátt í þeirri umræðu, hv. þingmaður. [Kliður í þingsal.] Ferlið snýst um samráð við þjóðina. Þjóðin vill fá að taka þátt í að setja nýja stjórnarskrá (Gripið fram í.) og við eigum að tryggja það að þjóðin verði með okkur í því að skrifa nýja stjórnarskrá fyrir lýðveldið Ísland. [Kliður í þingsal.]