140. löggjafarþing — 106. fundur,  24. maí 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[11:42]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (U):

Frú forseti. Ég held að það sé alltaf vandasamt fyrir öll samfélög að reyna að halda kúrs í svona ferli sem er ákveðið. Því er stundum haldið fram að það sé einfaldara fyrir þroskuð lýðræðissamfélög að halda kúrs og þær spurningar eru óneitanlega farnar að vakna varðandi þennan kúrs sem við erum að reyna að halda hvort við séum slíkt samfélag. Við ákváðum að sækja um aðild að Evrópusambandinu. Það er búið að skipa viðræðunefnd og viðræðurnar ganga ágætlega. (Gripið fram í: Nei.) Þær ganga bara ágætlega og viðræðunefndin stendur sig vel. Við erum í miðjum klíðum. Það hefur alltaf verið algjört grundvallaratriði í þessu ferli að þjóðin á síðan lokaorðið um það hvort við göngum í Evrópusambandið eða ekki. (VigH: Rangt.) Það verður þjóðaratkvæðagreiðsla um þennan samning og ég styð það. Við verðum einhvern veginn að reyna að slaka betur á með þetta ferli og klára það. Beiðni mín til þingheims í þessu máli er: (Forseti hringir.) Slöppum aðeins af.

Ég segi nei.