140. löggjafarþing — 106. fundur,  24. maí 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[11:46]
Horfa

Illugi Gunnarsson (S):

Virðulegi forseti. Sjálfstæðisflokkurinn lagði til sumarið 2009 að það yrði þjóðaratkvæðagreiðsla um þessa ákvörðun, þ.e. hvort sækja ætti um aðild að ESB. Ég tel að sú skoðun standi enn og að það sé rétt að þjóðin fái að segja hug sinn í þessu máli, bæði vegna þess hversu umdeilt málið er og hversu illa hefur gengið að klára samningana. Ég minni á að hæstv. ráðherrar sögðu í þingsal að það ætti að byrja að semja um sjávarútvegs- og landbúnaðarmál. Það hefur ekki gengið eftir. Ekki síður er vert að benda á að þróun mála úti í Evrópu, staða evrunnar og efnahagsmála í Evrópu, er þannig að mér er stórlega til efs að ef við stæðum núna frammi fyrir þeirri ákvörðun sem við stóðum frammi fyrir 2009 yrði meiri hluti í þingsalnum fyrir því að sækja um aðild að ESB og þar með upptöku evrunnar.

Ég hlýt að segja já við þessari tillögu.