140. löggjafarþing — 106. fundur,  24. maí 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[11:50]
Horfa

Jón Gunnarsson (S):

Virðulegi forseti. Það mátti skilja það á ákveðnum hv. þingmönnum stjórnarliðsins að þetta væri atkvæðagreiðsla um að hætta viðræðunum, þ.e. að þingið mundi ákveða það. Þetta er bara tillaga um að leggja það fyrir þjóðina sem mun auðvitað eiga lokaorðið í þessu máli, alveg eins og um stjórnarskrána.

Það er alveg ótrúlegt að verða vitni að þeirri hræsni og því lýðskrumi sem er stundað hérna. Mikil hljóta vandræði ákveðinna þingmanna að vera við eigin sannfæringu í þessu máli. Hv. þm. Þór Saari sagði áðan að þetta yrði sögulegur dagur ef málið yrði samþykkt, að það yrði að ræða málefnalega við þjóðina og við værum að stíga inn í svæði beins lýðræðis. Krafan væri almenn og skýr og við þyrftum að fara þangað. Á sama tíma ætlar Hreyfingin að hafna þessu (Gripið fram í.) skrefi til beins lýðræðis. Það þarf stundum, virðulegi forseti, manndóm til að fylgja sannfæringu sinni. Sá manndómur er ekki til hjá þeim þingmönnum sem hafa talað (Forseti hringir.) sem mest fyrir beinu lýðræði og aukinni þjóðaratkvæðagreiðslu þegar þeir hafna þessu máli.

Ég segi já.