140. löggjafarþing — 106. fundur,  24. maí 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[12:00]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S):

Frú forseti. Það má kjósa um stjórnarskrána í miðjum klíðum, það má kjósa um viðræðuferlið um stjórnarskrána, svo ég noti orðfæri hv. þm. Magnúsar Orra Schrams, en það má ekki kjósa um aðildarviðræður að ESB vegna þess að þær eru í miðjum klíðum.

Það mátti greiða atkvæði um tillögu stjórnlagaráðs með forsetakosningum í sumar. Í raun börðust menn hatrammlega fyrir því fyrir páska. Nú er talað um laumufarþega eða senuþjóf þegar við viljum bæta við spurningu í spurningavagni. Landskjörstjórn hefur sagt að ekkert sé því til fyrirstöðu, það þurfi bara að vera sérkjörseðill. (Gripið fram í: Hvaða kjörtímabil …?)

Auðvitað eigum við að nota þetta tækifæri fyrst meiri hluti Alþingis virðist ætla að stefna í þjóðaratkvæðagreiðslu. Auðvitað eigum við að gefa þjóðinni tækifæri á að segja skoðun sína um þetta mál.

Ég segi já.