140. löggjafarþing — 106. fundur,  24. maí 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[12:02]
Horfa

Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S):

Virðulegur forseti. 16. júlí 2009 var til lagt að þjóðin fengi að segja skoðun sína á því hvort hefja ætti aðildarviðræður við Evrópusambandið. Þeirri tillögu var ég fylgjandi og sagði já. Meiri hluti þingsins felldi hana. Ég greiddi hins vegar atkvæði með því að gengið yrði til aðildarviðræðna við Evrópusambandið og ég er þeirrar skoðunar að þeim samningi eigi að ljúka og að hann eigi síðan að fara til þjóðarinnar.

Ég er engu að síður, virðulegur forseti, þeirrar skoðunar að spyrja hafi átt þjóðina í upphafi hvort við ættum að hefja þennan leiðangur og þess vegna, til að vera samkvæm sjálfri mér hvað það varðar, segi ég já. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)