140. löggjafarþing — 106. fundur,  24. maí 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[12:25]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S):

Frú forseti. Það er fyrst og fremst fólkið sem sagði nei við því að þjóðin fengi að greiða atkvæði í upphafi um hvort leggja ætti af stað í þessa vegferð sem segir nei við þessari tillögu. Það segir nei við því að fólk fái að hafa skoðun á því hvort sækja eigi um. Það fólk segir nei við því að þjóðin fái að segja álit sitt á því hvort nú sé komið nóg. Við erum ekki að samþykkja hér að hætta við allt saman. Þeir sem segjast vilja sjá samning gleyma því að það kann að vera að þeir eigi skoðanabræður sem munu þá einfaldlega hafna þessari tillögu með sömu rökum og þeir hafa komið hér með.

Staðreynd málsins er sú, og það blasir við öllum, t.d. þegar hæstv. innanríkisráðherra hafnar þessari tillögu, maður sem er mótfallinn því að við göngum í Evrópusambandið, að við erum ekki hér að greiða atkvæði um hvort þetta bera megi undir þjóðina. Við erum að greiða atkvæði um það hvort ríkisstjórnin stendur eða hvort ríkisstjórnin fellur. Það er það sem verið er að greiða atkvæði um. [Háreysti í þingsal.] Það er það sem þeir sem hafna tillögunni eru að greiða atkvæði um. [Háreysti í þingsal.] Þeir þora ekki, [Háreysti í þingsal.] (Forseti hringir.) þeir vita að ríkisstjórnin mundi ekki þola það. Þeir vita að ríkisstjórnin mundi ekki þola það. [Háreysti í þingsal.] (Forseti hringir.)