140. löggjafarþing — 106. fundur,  24. maí 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[12:27]
Horfa

Björgvin G. Sigurðsson (Sf):

Frú forseti. Frá því að Alþingi ákvað að sækja um aðild að Evrópusambandinu fyrir tæplega þremur árum með atkvæðum þingmanna úr öllum þingflokkum hefur umsóknarferlið gengið vel enda er um að ræða eitt mesta hagsmunamál þjóðarinnar um áratugaskeið og einstakt tækifæri til að rétta af þann lýðræðis- og fullveldishalla sem samningurinn um EES fól í sér.

Lýðræðislegur meiri hluti á Alþingi tók ákvörðun um að sækja um aðild og því ferli á að ljúka með samningi um aðild Íslands að Evrópusambandinu. Kjarninn í milliliðalausu lýðræði er sá að almenningur taki upplýsta afstöðu á grundvelli staðreynda. Um það erum við að tala hér í stað þess að rjúfa ferlið og greiða atkvæði um hálfkláraðan samning sem gengið hefur vel að gera en enn á eftir að leiða til lykta mikilvægustu kaflana. Mestu skiptir að klára samninginn og kjósa svo.

Ég segi nei.