140. löggjafarþing — 106. fundur,  24. maí 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[12:29]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S):

Virðulegi forseti. Sumarið 2009 var knúin fram aðildarumsókn að Evrópusambandinu undir purkunarlausum hótunum forustumanna ríkisstjórnarflokkanna. Þá var því jafnframt hafnað að spyrja þjóðina álits á því máli áður en farið var í þessa vegferð.

Nú eru hins vegar allar aðstæður breyttar. Þessar viðræður fara fram núna undir annars konar hótunum, undir hótunum frá Evrópusambandinu um viðskiptaþvinganir. Aðstæðurnar eru líka breyttar í Evrópusambandinu. Allir eru sammála um að það sem stendur í vegi fyrir efnahagslegri viðreisn í heiminum séu einmitt vandræðin á evrusvæðinu og þar fyrir utan eru þessar viðræður ekki lengur bara aðildarviðræður heldur aðlögunarviðræður eins og allir sjá. Þess vegna er algjörlega óhjákvæmilegt að þjóðin sé spurð einmitt núna. Þjóðin hefur allar forsendur til að taka upplýsta ákvörðun um það hvort halda eigi þessum viðræðum áfram. Ég sé hins vegar að ESB-flokkarnir hér á Alþingi, (Forseti hringir.) Samfylkingin, Vinstri grænir og Hreyfingin, eru á móti því að spyrja þjóðina álits. (Gripið fram í: Sjálfstæðisflokkurinn?)

Ég er því ósammála og segi já við þessari tillögu.