140. löggjafarþing — 106. fundur,  24. maí 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[12:43]
Horfa

Lilja Mósesdóttir (U):

Virðulegi forseti. Við greiðum atkvæði um viðbótarspurningu þar sem spurt er hvort veita eigi almenningi rétt til að krefjast þjóðaratkvæðagreiðslu um lög sem varða skattamál, þ.e. mál eins og Icesave-málið. Icesave-málinu er ekki enn lokið og Icesave-lausnin gæti endað með því að þungar byrðar verða lagðar á núverandi og komandi kynslóðir skattgreiðenda. Þess vegna er að mínu mati mjög mikilvægt að veita skattgreiðendum og kjósendum þann rétt að kalla eftir þjóðaratkvæðagreiðslu um skattamál eða málefni eins og Icesave-málið.