140. löggjafarþing — 106. fundur,  24. maí 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[12:49]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F):

Frú forseti. Hv. formaður stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar hefur útskýrt að það mál sem hér er til umræðu snúi fyrst og fremst að því að kanna hug almennings til þess hvaða hugmyndafræði eigi að leggja til grundvallar við breytingar á stjórnarskrá. Í ljósi þess þykir mér eðlilegt að spurt sé grundvallarspurninganna um hugmyndafræðina og hef því lagt fram þrjár breytingartillögur til að fá skýrari mynd af því á hvaða hugmyndafræði stjórnarskrárbreytingar eigi að byggjast, þar með talið þessa breytingartillögu þar sem lagt er til að spurt verði hvort fólk telji mikilvægt að ákvæði stjórnarskrár séu auðskiljanleg.

Fyrir fáeinum árum hefði þetta verið talinn sjálfsagður hlutur, held ég. Eins og umræða um stjórnarskrárbreytingar hefur hins vegar þróast virðist ljóst að að minnsta kosti hluti þingmanna telur ekki þörf á því að ákvæði stjórnarskrár séu auðskiljanleg öllum, að menn skilji þær á sama hátt, og þar af leiðandi er rétt að leita til þjóðarinnar um álit á þessu máli.