140. löggjafarþing — 106. fundur,  24. maí 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[12:58]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F):

Virðulegi forseti. Það var ágætt að hv. formaður stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar fór yfir ákvæði um hvernig á að breyta stjórnarskrá og varpaði þar með ljósi á það hvað þetta er algjörlega tilgangslaust plagg sem verið er að ræða hér í dag. Hér er ekki um endanlegt plagg að ræða. Það er þetta sem ég hef barist fyrir í nefndinni, að koma þessu faglega starfi áfram og hér í þinginu. Ég minni á það, virðulegi forseti, að ég var útnefnd ræðudrottning vegna þess að ég hef lagt allt undir í vetur til að reyna að breyta þessu máli í þá átt að það samræmist núverandi stjórnarskrá. Þess vegna er einkennilegt að þetta skuli fara fram með þessum hætti, það kostar 250–300 milljónir en þetta er samningur ríkisstjórnarinnar, þetta eru hrossakaupin sem voru gerð við Hreyfinguna (Forseti hringir.) svo þessi verklausa ríkisstjórn gæti setið áfram.

Um ávirðingar Álfheiðar Ingadóttur ætla ég að fara yfir, frú forseti, (Forseti hringir.) undir liðnum um að bera af sér sakir þegar þessari atkvæðagreiðslu er lokið. [Kliður í þingsal.]