140. löggjafarþing — 106. fundur,  24. maí 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[13:02]
Horfa

Birgir Ármannsson (S):

Hæstv. forseti. Eftir því sem ég skil erum við núna nákvæmlega að greiða atkvæði um þá grundvallarspurningu hvort fram eigi að fram þjóðaratkvæðagreiðsla í haust, fyrir 20. október. Ég hef áður lýst því sem skoðun minni í þessu máli að mér fyndist óskynsamlegt að efna til þjóðaratkvæðagreiðslu á þessum tímapunkti. Mér fyndist eðlilegra að málið yrði fullunnið áður en það yrði lagt í dóm þjóðarinnar í almennri atkvæðagreiðslu. Það er ljóst að meiri hlutinn í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd hefur á sama tíma og verið er að undirbúa þessa þjóðaratkvæðagreiðslu lagt upp með það að nokkrir sérfræðingar verði fengnir til að fara yfir tillögur stjórnlagaráðs með það að markmiði að lagfæra þær út frá lagatæknilegum sjónarmiðum eftir því sem manni skilst. Einnig er ljóst að Alþingi mun, eins og gefur að skilja og núgildandi stjórnarskrá kveður á um, fara yfir málið næsta vetur og hefur þar fullt umboð til að gera þær breytingar sem nauðsynlegt er.

Ég velti fyrir mér (Forseti hringir.) um hvað nákvæmlega greidd verði atkvæði í haust. Ég tel að þetta sé rangur tímapunktur til að leita til þjóðarinnar út af þessu máli og segi því nei.