140. löggjafarþing — 106. fundur,  24. maí 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[13:08]
Horfa

Baldur Þórhallsson (Sf):

Frú forseti. Í dag er stigið enn eitt skrefið í átt að nýjum samfélagssáttmála, nýrri stjórnarskrá sem leggur grunninn að enduruppbyggingu samfélagsins eftir eitt mesta efnahags- og samfélagslega hrun síðari ára. Þetta hefur verið grýtt leið enda margar hindranir á veginum. Fyrirstöðu er enn að finna í hópi þeirra sem engu vilja breyta, við engu hrófla, þeirra sem höfðu myndað árið 2007 fyrirmyndarsamfélagið.

En í dag ber að fagna. Nú mun þjóðinni gefast tækifæri til þess að segja álit sitt á nokkrum grundvallarþáttum er varða stjórnarskrána. Niðurstaða þjóðaratkvæðagreiðslunnar verður mikilvægt veganesti fyrir þingið. Höldum áfram þeirri góðu vinnu sem lagt var upp með með þjóðfundi og stjórnlagaráði um stjórnarskrána. Nú er aftur komið að þjóðinni.

Þess vegna segi ég já við öllum þessum tillögum. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)