140. löggjafarþing — 106. fundur,  24. maí 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[13:16]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S):

Frú forseti. Það að menn skuli telja tilefni til að spyrja hvort gera megi frumvarp þar sem tillögur stjórnlagaráðs eru lagðar til grundvallar lýsir því að menn eru í efa og það þrátt fyrir þjóðfundinn, þrátt fyrir vinnu stjórnlaganefndar, þrátt fyrir það sem áður var gert og þrátt fyrir vinnu stjórnlagaráðs sem meiri hlutinn kaus á sínum tíma.

Hvers vegna er þessi efi eftir allt þetta samráð og hvað þýðir það? Ef menn segja já, að það megi nota tillögu stjórnlagaráðs til grundvallar, hvað verður þá gert? Hvaða atriði eru það í tillögum stjórnlagaráðs sem verða þá lögð til grundvallar í nýju frumvarpi? Hvaða atriði eru það? (Gripið fram í: Allar.) Allar, grípur hv. þingmaður fram í, þannig að maður spyr sig: Hvers vegna voru þá ekki tillögurnar í heild sinni lagðar fram sem frumvarp að nýrri stjórnarskrá og spurt: Er það þetta sem þið eruð að biðja um?

Ég skal segja ykkur hvert svarið er. Svarið er að menn treystu sér ekki til þess vegna þess að allir hæfustu sérfræðingar okkar komu í þingið og sögðu: Þetta eru ófullgerð drög. Samt ætla menn að halda svona áfram. Því miður mun ekki gagnast okkur nægjanlega að fá svar við þessari spurningu. Það liggur reyndar fyrir eins og komið hefur fram í umræðunni að nefndin hefur nú þegar hafið endurskoðun (Forseti hringir.) á þessum tillögum. Þegar kosningin fer fram verður skjalið sjálft sem kosið verður um í endurskoðun.