140. löggjafarþing — 106. fundur,  24. maí 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[13:18]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S):

Hæstv. forseti. Ég styð ekki þessa tillögu. Ég hef farið yfir það í umfjöllun minni um þetta mál, og þessa spurningu sérstaklega, að spurningar þurfa að vera skýrar, það þarf að vera ljóst hvað spurt er um og þeir sem eru að greiða atkvæði þurfa að geta skilið spurninguna á sama hátt. Þá mega þær ekki vera leiðandi eða leiða kjósandann inn á ákveðna niðurstöðu.

Í þessari spurningu er ekki gert ráð fyrir svarmöguleika sem leiðir í ljós vilja kjósenda til að styðjast áfram við núverandi stjórnarskrá eða gera minni háttar breytingar á henni. Þá þegar erum við búin að ætla kjósendunum ákveðinn vilja sem er ekki gott. Að öðru leyti má taka undir þau sjónarmið sem hér birtust í máli hv. þm. Bjarna Benediktssonar. Þetta er allt saman afskaplega skrýtið. Hvers vegna var ekki einfaldlega farið í efnislegar umræður um tillögu stjórnlagaráðs í þinginu? Hvers vegna mátti ekki ræða hana hér í umfjöllun um þetta mál? Þeim spurningum er algerlega ósvarað enn þann dag í dag.