140. löggjafarþing — 106. fundur,  24. maí 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[13:27]
Horfa

Álfheiður Ingadóttir (Vg):

Frú forseti. Íslensk stjórnmál hverfast nú um stundir öðru fremur, eins og þau hafa reyndar alltaf gert, um baráttuna milli sérhagsmuna hinna fáu og almannahagsmuna. Við erum núna með til afgreiðslu í þinginu veigamikil þingmál sem lúta að því, fiskveiðistjórnarfrumvarpið, frumvarp um veiðigjöld og rammaáætlun um nýtingu og verndun vatnsafls og jarðvarma.

Oft hefur verið tekist á um það hvort menn vilji að auðlindir þjóðarinnar til lands og sjávar verði í eigu þjóðarinnar eða ekki. Nú viljum við spyrja þjóðina hvort hún sé því samþykk að þar um verði ákvæði í stjórnarskrá. Ég tel það mjög mikilvægt. Það hefur margoft verið reynt að koma tillögu sem þessari í gegnum þingið.

Ég tek undir hvatningarorð hv. þm. Sivjar Friðleifsdóttur og treysti því að þjóðin muni taka þátt í þessari atkvæðagreiðslu og segja já við þessari tillögu.