140. löggjafarþing — 106. fundur,  24. maí 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[13:28]
Horfa

Illugi Gunnarsson (S):

Virðulegi forseti. Ég tel þann meinbug á hugtakinu þjóðareign að hugtakið er langt í frá skýrt. Fræðimenn hafa bent á galla sem því fylgja og það hefur líka komið fram í máli margra hv. þingmanna stjórnarliðsins að í raun og veru sé sá skilningur á bak við þetta hugtak að um sé að ræða ríkiseign sem ekki megi framselja. Ég er mjög á móti þessu hugtaki inn í stjórnarskrána, ég tala nú ekki um á grundvelli þess skilnings sem hér er um að ræða. Ég tel að framtíð þjóðarinnar byggi einmitt á því að það sé ekki ríkiseign á auðlindum. Ég hefði þá talið í sjálfu sér skynsamlegra og heiðvirðara að spyrja beint út um þetta mál því að hugtakið þjóðareign er það óljóst að svar þjóðarinnar verður marklaust. Þess vegna hefði verið betra (Forseti hringir.) að þetta hugtak væri ekki í þeim spurningum sem hér er um að ræða og að ekki væri farið með það inn í stjórnarskrá.