140. löggjafarþing — 106. fundur,  24. maí 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[13:33]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S):

Hæstv. forseti. Við erum að greiða atkvæði um 2. liðinn í þessum spurningavagni eins og hv. þm. Álfheiður Ingadóttir hefur kallað það í þessari umræðu. Ég styð ekki þennan lið og eins og ég hef fjallað um í ræðum mínum er mikilvægt að spurningar séu skýrar og að allir þeir sem taka afstöðu til þeirra geti skilið þær á sama hátt.

Hér eru notuð hugtök sem að mínu mati liggur ekki ljóst fyrir hvaða þýðingu hafa. Samkvæmt fræðunum hefði þurft að liggja fyrir skilgreining á því hvað menn telja felast í hugtakinu þjóðareign þegar svona spurning er lögð fyrir. Þá hefði til dæmis verið hægt að hnýta því fyrir aftan hefðu menn verið á þeirri skoðun að þessi spurning ætti að standa þarna. Hún þyrfti að minnsta kosti að vera þannig að allir gætu skilið hana á sama hátt.

Þetta er stór galli, frú forseti, og ég styð ekki þessa spurningu.