140. löggjafarþing — 106. fundur,  24. maí 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[13:36]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Það er alveg rétt að það hefur verið fjallað um bæði náttúruauðlindir og þjóðareign. Hv. þm. Pétur Blöndal fór ágætlega yfir það að menn deila endalaust um það hvað náttúruauðlindir eru en Skúli Magnússon, dósent við lagadeild HÍ, skrifaði, með leyfi forseta:

„Í ákvæði stjórnlaganefndar felst að „þjóðareign“ vísar ekki til eignarréttar í lagalegum skilningi — hvorki ríkiseignar né sérstaks (nýs) eignarforms. Þvert á móti vísar hugtakið til þeirrar hugmyndar að náttúruauðlindir Íslands séu gæði sem þjóðin öll hefur ríka hagsmuni af (ekki ósvipað því að við, þjóðin, „eigum“ tungu, bókmenntir, landslið í handbolta o.s.frv.). Af þessu leiðir að auðlindir í þjóðareign geta lagalega verið háðar eignarrétti einkaaðila, eign ríkisins eða verið eigendalausar.“

Þarna skrifar fræðimaður í Háskóla Íslands. Þá er í það minnsta einn aðili á Íslandi sem er ekki alveg viss hvað þetta þýðir, en ég er ansi hræddur um að það séu margir fleiri. Þess vegna (Forseti hringir.) er þetta skýrt dæmi um óljósa spurningu og ekki hægt að styðja hana.