140. löggjafarþing — 106. fundur,  24. maí 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[13:37]
Horfa

innanríkisráðherra (Ögmundur Jónasson) (Vg):

Hæstv. forseti. Ég ætla að samþykkja þessa tillögu en vil gjarnan að það komi fram að ég tel skorta á að spurt sé af nægilegri nákvæmni um þætti sem lúta að einkaeignarrétti. Ég hef gagnrýnt stjórnarskrárdrög stjórnlagaráðs, m.a. á þeirri forsendu að ekki sé nægilega skýrt kveðið á um takmörkun á einkaeignarrétti (Gripið fram í.) á auðlindum og hann sé yfir höfuð of vítt skilgreindur á kostnað almannaréttinda. Ég hefði gjarnan viljað fá spurningu þar að lútandi.

Þegar málið kemur að nýju til kasta Alþingis, að aflokinni ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðslu, mun ég væntanlega koma með tillögu um þetta og einnig varðandi atriði (Forseti hringir.) er lúta að lýðræðinu sem voru felld og var að finna í tillögum hv. þm. Lilju Mósesdóttur.