140. löggjafarþing — 106. fundur,  24. maí 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[13:48]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S):

Hæstv. forseti. Enn og aftur er ástæða til að gera grein fyrir athugasemdum um efni spurningar. Ég segi nei við þessu. Þetta er ekki nægilega skýrt og samkvæmt fræðunum verður að vera ljóst um hvað er spurt og reynt að byggja spurningarnar þannig upp að allir þeir sem taka afstöðu til hverrar spurningar eigi kost á því að skilja efni hennar á sama hátt.

Hér er óljóst hvað átt er við þegar sagt er:

„Vilt þú að í nýrri stjórnarskrá verði persónukjör í kosningum til Alþingis heimilað í meira mæli en nú er?“

Hvað átt er við með „meira mæli“? Af hverju er ekki einfaldlega lögð fram einhver útfærsla á því hvað átt er við með persónukjöri? Í meira mæli getur verið 1% meira en nú er eða 100% meira en nú er. Þessi spurning er algjör markleysa og það verður ekki hægt að nota niðurstöðuna úr henni á nokkurn einasta hátt í þeirri vinnu sem fram undan er í þinginu næsta vetur. Menn hefðu betur fengið aðstoð einhverra sérfræðinga til að spyrja þessara spurninga. (VigH: Það var gert.) (Forseti hringir.) (UBK: Já, er það?)