140. löggjafarþing — 106. fundur,  24. maí 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[14:09]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S):

Virðulegi forseti. Þessi spurning er algjörlega óskiljanleg vegna þess að samhliða er ekki verið að taka afstöðu til annarra spurninga sem skipta mjög miklu máli í þessu sambandi. Í fyrsta lagi: Er sá sem greiðir atkvæði með þessari spurningu um leið að segja að hann hafni málskotsrétti forseta Íslands, hafni því að það ákvæði sé í 26. gr. stjórnarskrárinnar?

Það hefur líka oft verið rætt um að það væri eðlilegt að minni hluti Alþingis gæti kallað eftir því að tiltekið mál færi í þjóðaratkvæðagreiðslu. Það fyrirkomulag er til í danska þinginu. Erum við þá að taka afstöðu gegn þeirri hugmynd líka með afstöðunni gagnvart þessari spurningu? Þessa spurningu, alveg eins og í spurningunni áðan þegar ég nefndi jafnt vægi atkvæða kjósenda, verða menn að skoða í einhverju samhengi. Það er ekki gert. Þetta er gjörsamlega vanbúin (Forseti hringir.) og illa unnin spurning, illa unnið plagg og við hljótum þess vegna að hafna þessari spurningu.