140. löggjafarþing — 106. fundur,  24. maí 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[14:27]
Horfa

Birgir Ármannsson (S):

Hæstv. forseti. Þetta er lokaatkvæðagreiðslan um þessa tillögu. Ég ítreka það sem ég hef áður sagt, ég tel að sú þjóðaratkvæðagreiðsla sem stefnt er að með tillögunni sé hið mesta óráð og enn einn útafaksturinn, ef svo má segja, hjá hæstv. ríkisstjórn og (Gripið fram í.) stuðningsmönnum hennar í þinginu í sambandi við það hvernig þetta mál hefur verið rekið frá upphafi. Það er verið að stefna málinu úr einu klúðrinu í annað og þannig hefur það verið rekið frá upphafi.

Hv. þm. Valgerður Bjarnadóttir og einhverjir fleiri úr hópi stjórnarliða hafa vísað til þess að við gerð spurninga hafi þau notið aðstoðar sérfræðinga. Allt gott er um það að segja. Að einhverju leyti má finna þeim orðum stað. Það er hins vegar athyglisvert að hvergi í þessari umræðu, hvorki í dag né fyrri (Forseti hringir.) daga hennar, hefur komið fram hvað sérfræðingar á sviði stjórnmálafræði og stjórnskipunarréttar sögðu um þá hugmynd að efna til þjóðaratkvæðagreiðslu á þessu stigi málsins. Það væri kannski ástæða fyrir þingmenn að hugsa um það.