140. löggjafarþing — 106. fundur,  24. maí 2012.

orð þingmanna í atkvæðagreiðslu.

[14:35]
Horfa

Baldur Þórhallsson (Sf) (ber af sér sakir):

Frú forseti. Í atkvæðagreiðslu áðan blandaði hv. þm. Guðlaugur Þór Þórðarson afstöðu minni í þingsalnum við starf mitt utan þings. Hann fór að vísu alrangt með kennslu mína við Háskóla Íslands. En með þessu afhjúpaði hv. þingmaður enn og aftur þau vinnubrögð sem hann stundar innan húss sem utan. Hann ræðst á manninn en fjallar ekki efnislega um málefnið.

Það væri óskandi að einstaka þingmenn létu af linnulausum árásum sínum á sérfræðinga og annað fagfólk í samfélaginu úr þessari pontu. Við höfum öll rétt á því að láta skoðanir okkar í ljós. Við höfum öll rétt til þess að taka til máls og lýsa okkur persónulegu afstöðu. Það á ekki að líðast að þingmenn geti komið í veg fyrir að almenningur í þessu landi tjái sig opinberlega. Ef einstaka þingmönnum leyfist að sá fræjum tortryggni í garð allra þeirra í samfélaginu sem ekki eru þeim sammála er málfrelsið í hættu og þá er lýðræðið í hættu. (Forseti hringir.) Ég vil leyfa mér að hvetja þingmenn til málefnalegra umræðna og láta af þeim ósið að fara í manninn en ekki málefnið. (Gripið fram í.)