140. löggjafarþing — 106. fundur,  24. maí 2012.

orð þingmanna í atkvæðagreiðslu.

[14:38]
Horfa

Illugi Gunnarsson (S) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Það er gríðarlega mikilvægur réttur okkar þingmanna að geta brugðist við og borið af okkur sakir ef hv. þingmenn eru sannanlega bornir sökum. Ég er þeirrar skoðunar að hér hafi ekki verið um slíkt að ræða. Ég tel að forseti hefði átt að stöðva þessa umræðu af því að þarna var ekki verið að bera sakir á þingmanninn.

Vissulega lenda menn í því að geta verið ósáttir við það hvernig orð þeirra eru túlkuð, hvernig lagt er út af ummælum þeirra, bæði innan þingsins og utan. Við því er að búast. Hver og einn þingmaður verður að gæta sóma síns í því hvernig að því er staðið.

Ég tel að við verðum að fara varlega með þennan rétt að bera af okkur sakir þannig að [Símhringing í þingsal.] muni forseti alltaf afgreiða beiðni þingmanna um að fá að bera af sér sakir sé þá um leið brugðist við því (Forseti hringir.) og það þurfi ekki að vera neinn vafi á því að þingmenn komi í pontuna til að bera af sér sakir. (Gripið fram í: Þú verður að endurtaka þetta …) [Hlátur í þingsal.]