140. löggjafarþing — 106. fundur,  24. maí 2012.

orð þingmanna í atkvæðagreiðslu.

[14:40]
Horfa

Ólína Þorvarðardóttir (Sf) (um fundarstjórn):

Frú forseti. Það er full ástæða til að ræða þessi síendurteknu tilvik sem hafa komið upp í umræðum upp á síðkastið þar sem opinberum störfum manna er blandað inn í þær skoðanir sem þeir hafa sett fram á opinberum vettvangi. Hvers vegna er verið að draga fram störf hv. þm. Baldurs Þórhallssonar sem háskólakennara? Hvers vegna er verið að blanda því saman við skoðanir hans í þinginu? Það er nefnilega það sem var gert og það grefur lymskulega undan starfsheiðri fólks þegar svona umræða er vakin upp ítrekað.

Er hv. þm. Guðlaugur Þór Þórðarson þeirrar skoðunar að hv. þm. Baldur Þórhallsson eigi ekki að hafa málfrelsi hér, eigi ekki að fá að tjá skoðanir sínar? Eða er hann þeirrar skoðunar að opinberir fræðimenn og háskólakennarar eigi ekki að hafa kjörgengi (Forseti hringir.) af því að það samræmist ekki störfum þeirra sem fræðimanna? (Forseti hringir.) Þetta fær auðvitað ekki staðist og þetta er leiðindaárátta sem á ekki að viðgangast.