140. löggjafarþing — 106. fundur,  24. maí 2012.

lengd þingfundar.

[14:45]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S):

Frú forseti. Nú er það orðið afar brýnt, enda eldhúsdagur strax eftir helgi, að það fari að komast einhver mynd á það hvernig eigi að ljúka þingstörfum á þessu vorþingi þannig að gott jafnvægi fáist í framgang þeirra mála sem eftir eru og nýtingu þess tíma sem við höfum úr að spila. (Gripið fram í: Hvaða vorþingi?)

Það er farið að spyrjast út á göngunum að ákveðnir stjórnarliðar, og kannski er það forsætisráðherrann sem fer þar fremstur í flokki, ætla að hafa sumarþing í júlí. Hafi þingið einhvern tímann verið undir hælnum á einni ríkisstjórn er það þessi ríkisstjórn sem kemur með öll mál allt of seint, fer fram á næturfund eftir næturfund og hótar svo sumarþingi fram í miðjan júlí, eftir forsetakosningar, til að fá sín mál í gegn. Ég segi það bara fullum fetum, frú forseti, við munum einfaldlega ekki sætta okkur við þá óvissu og það verklag sem hér er boðið upp á, ekki eina mínútu lengur. Það er orðið mjög knýjandi að það verði fundað (Forseti hringir.) með fulltrúum þingflokkanna og fengin einhver mynd á það hvernig hægt er að ljúka þessu vorþingi sómasamlega fyrir þingið þannig að okkur setji ekki hreinlega niður og án þess að ríkisstjórnin vaði yfir þingið á skítugum skónum og fái (Forseti hringir.) allt sitt í gegn og haldi þinginu þangað til það hefur fengið sitt síðasta mál afgreitt. (Gripið fram í: Það er ekki verið að flýta fyrir.) (Gripið fram í.)